Hörmuleg staðreynd.

Flokksbræðraböndin,skólaböndin og hagsmunagæsla þeirra sem aðstöðu hafa  stendur enn fyrir sínu. Nú hafa margir þeirra aðila sem höfðu milljarða af þjóðinni komist  í skjól með eignir sínar gjörðir þeirra eru fyrndar. Svo hægt hefur gengið, og svo undarlega verið unnið að ekki er einleikið nema um bræðra og systrabönd sé að ræða. Þegar litið er til þeirra lánlausu sem nutu þess eins af góðærinu að missa eigur sínar er manni brugðið. Núverandi stjórn tók við þrotabúi og hefur átt á brattann að sækja en ekki hefur alltaf verið stigið rétt til jarðar.

Oflaunastétt í aðgerðum

Meðan almennir félagar í verkalýðshreyfingunni reyna að gæta hófs við samningagerð, vega oflaunahópar að grunnstoðum þjóðfélagsins. Þjóðin er í vanda og enn spá menn að þjóðargjaldþrot sé yfirvofandi vegna þeirra áfalla sem riðið hafa yfir. Á þessum tíma voga oflaunahópar sér að vega að grunnstoðum og heimta stærri hluta af þjóðarkökunni með kverkatak sitt að vopni. Sagt var að rónarnir hefðu komið óorði á Brennivínið, oflaunastéttin er búin að koma óorði á verkfallsréttinn. Breytinga er þörf 

Furðulegt umræðuefni.

Staða er auglýst,ráherra skipar valnefnd til að fara yfir umsóknir og meta hæfi umsækjenda. Ráðherra ákveður að fara að ráðum nefndarinnar og ræður þann aðila sem nefndin telur hæfastan. Nú logar þigheimur og allt er brjálað vegna þess að ráðherra skipaði ekki samflokksmann sinn sem taldist 5 hæfastur umsækjanda. Ég bara endurtek ráðherra gekk framhjá samflokksmanni sínum við ráðningu í eðalembætti. Þingmenn eru ævareiðir vegna þessa og þjóðin horfir undrandi á, maður segir auðvitað ekki bjánana á þingi. 


Mál að linni.

Hlustaði á Kastljós í gærkveldi, styrktist enn í þeirri trú að nauðsyn væri að staldra við og hætta leikaraskapnum. Þó ekki litist mér á þegar Jón Gnarr og félagar voru studdir til æðstu valda, voru þeir sigurvegarar kosninganna og kurteisi að taka tillit til vilja fjölda kjósenda sem kölluðu á ný viðhorf,ný vinnubrögð. Nú er komið að Degi og félögum að hætta tilrauninni,  borgarbúar hafa ekki efni á meiri kjánagangi og Samfylkingin enn síður. Síðustu mánuði hafa naglar verið reknir í lokið á kistu Samfylkingarinnar í borginni og nú er gnarrinn farinn að hnykkja endana. Geti Samfylkingarfulltrúarnir ekki starfað með núverandi andstöðu flokkum í borgarstjórn ber henni skylda að láta þeim eftir taumana og verja þá falli. Ástandið sem komið er upp í dag er ekki aðeins til skammar heldur og líka óverjandi. 

Þjóðinni blæðir.

Líklega eru að verða vatnaskil í stjórnmálum þessa lands. Fjöldinn sem mætti á Austurvöll segir allt sem segja þarf. Stóra spurningin er hvaða völd ríkisstjórnin hefur,bankarnir sem styrktir voru með fjármunum fóksins  þráast við og sækja harkalega í vasa almennings. Slitastjórnir sitja sem fastast og greiða sér svívirðileg laun . Afskriftir til fyrirtækja eru meiri en fólkið í landinu þyrfti til að halda heimilum sínum. Ekki er talað um að allt fari á hvolf  þegar hrunverjar seilast í ríkissjóð . Snillingar stofna dótturfélög sem fá hundruð milljóna afskrifaðar og sum einhverja milljarða meðan móðurfélögin greiða drjúgan arð til eigenda sinna. Fyrir tíma tölvutækninnar hefðu flestir þessara aðila verið settir á Hraunið sem dæmdir ræningjar.

Háðuleg staða.

Viðskiptaráðherra leggur sig í líma við að dreifa smjörklípum til þess að draga úr vægi gengisdómsins. Bankarnir segjast geta endurgreitt oftekið fé sem haft var að almenningi. Viðskiptaráðherra talar eins og verið sé að gefa einum og annar skilinn útundan. Málið er einfalt bankarnir geta skilað því sem oftekið var en ráðherrann þvælist fyrir. Ráðherra sem þyrlar moldviðri og þvælist fyrir dómi Hæðstaréttar sem gaf þúsundum nýja von á að víkja strax. 

Hvað er málið?

Arion banki og Íslandsbanki hafa nú lýst yfir getu sinni til að endurgreiða oftekið fé vegna erlendra bílalána. Þeir eru því fullfærir um að endurgreiða viðskiptavinum sínum samkvæmt útskurði Hæstaréttar. Hvað er málið, hverra hagsmuna eru Seðlabankastjóri og Viðskiptaráðherra að gæta? Málið er ljóst, dómur fallinn og viðskiptavinir bíða leiðréttingar, það er skylda ríkisstjórnarinnar að höggva strax á hnútinn og gera þúsundum íslendinga kleyft að rísa á fætur á ný.

Gráta svíðingar.

Dómur Hæstaréttar um gengistryggð lán vakti vonir hjá þúsundum og fjöldinn sem hafði velkst um í algjöru svartnætti eygði allt í einu ljósið. Einhverjir hnútar voru í ofboði hnýttir af  bankastjórnendum og þeirra taglhnýtingum og nú er hræðsluáróður rekinn.  Dómurinn var ekki um eftirgjöf skulda,hann var um skil á illa fengnum fjármunum til réttmætra eigenda. Hvað varðar kjaftæðið um gjaldþrot bankanna segir blogg Marínós G Njálssonar í mbl hér í dag allt sem segja þarf . Mál er að linni ,stjórnvöld verða að gera það sem þarf og höggva á hnútana.  

 

 


Setjum bankaræningjana inn.

Nú er komið í ljós að ýmsir eigendur bankanna hafa lagt undir sig tugi milljarða í aðdraganda hrunsins. Fé í gæslu bankanna var ekki einkaeign eigenda, því er um ósvikin bankarán að ræða. Setjum bankaræningjana og vitorðsmenn þeirra sem starfa innan bankanna í gæsluvarðhald , það skiptir litlu hvort notaðar eru tölvur, handverkfæri eða sprengiefni. Fjármunir hverfa úr bankanum þegar glæpamönnum tekst vel upp. Enn og aftur inn með bankaræningjana.

 Aðgengi að blogginu er orðið torsótt og hætt við að skrifarar sem lesendur fari að hugsa sér til hreyfings.


Er sumum sjálfrátt?

Skæðustu hamfarir sem þjóðin hefur barist við, leika sem logi við akur og tvísýnt hvernig fer. Fjöldinn hefur tekið á sig kjaraskerðingu til að bjarga því er bjargað verður, þá rísa upp  þeir er kverkatak hafa á þjóðfélaginu og krefjast kauphækkunar. Flugumferðastjórum og flugvirkjum gefst nú gullvægt tækifæri til að lama ferðaþjónustu landsins og í þágu græðginnar er gripið til vopna. Þegar ofurlaunastéttir fara fram á kauphækkun sem nemur hærri upphæð en eftirlaunamaður hjá ríkinu hefur eftir 19 ára starf er bandvitlaust gefið. Sumt fólk ræður ekki við valdið sem verkfallsrétturinn gefur og því verður að losa þann kaleik frá því. 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband