Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kosningar strax ?

Stjórnarandstaðan kallar á kosningar í vor og manni sýnist formaður Framsóknarflokksins vilja halda áfram að þæfa Icesave vitleysuna. Eflaust er uggur í mörgum að efna til kosninga, en það er ótækt að þeir aðilar sem kveiktu þá elda sem brenna heitast á þjóðinni skuli standa gargandi á hliðarlínu. Við verðum að draga þá til ábyrgðar og hætta að láta þá friðhelgi sem þeir hafa komið sér upp vernda þá. Almenningur veit hverjir stóðu fyrir ráninu á kvótanum. almenningur veit hverjir stóðu fyrir ráninu á bönkunum og almenningur veit hverjir sköpuðu aðstæður kúlulánþega til áframhaldandi sjálftöku .Almenningi er ekki alls varnað.


Vikur hinna beittu hnífa.

Þjóðaratkvæðagreiðslu er lokið og niðurlæging ríkisstjórnarinnar er algjör. Hvort hún geti setið áfram er ekki að vita, en hæpið er það. Þegar við svo lítum á stanslausar lána afskriftir óþurftarmanna og útrásarglópa og hlustum í leiðinni á blaðrið um aðstoð við heimilin í landinu þá er manni öllum lokið. Fólk sem skuldar par hundruð þúsunda er elt uppi af löggiltum rukkurum og hótað öllu illu, sumir hverjir eru því að gefast upp.  Heimilum og láglauna fólki verður að bjarga strax því fjölda flótti úr landi eða blóðugt ofbeldi er að bresta á. Haldi einhver að brennuvargarnir sem kveiktu þá elda sem nú brenna bjargi einhverju þá er það óskhyggja. Ekki veit ég hvað er til bjargar íslenskri þjóð .

Bráðabirgðalög.

Þessa mínútuna sleppi ég Icesave og útrásarglópum. Það eru válynd veður og við verðum öll að snúa bökum saman svo hægt verði að rétta skútuna af. Verkfallshugmyndir hálaunstétta þarf að berja útaf borðinu og setja verður lög sem banna þá tilburði næstu 12 mánuði. Séu til aukapeningar eiga þeir að renna til hækkunar lægstu launa.

Inn með þá

Eftir síðustu hrollvekju hlýtur sú krafa að verða almenn að þeir bankamenn sem aðstoðuðu fjárglæframennina við að svíkja fé út úr bönkunum verði settir inn. Ránið er auðsætt og auðvitað á vitorðspakkið innan bankana að fara í steininn.

Er fólkið fífl.

Í beittum texta frá fyrri tíð söng þekktur söngflokkur fólk er fífl. Auðvitað þótti manni í þá daga en nú brennur á. Getur verið að almenningur sem á um sárt að binda og er hundeltur vegna par hundruð þúsunda króna skulda láti átölulaust að afskrifaðir séu milljarða skuldir glæframanna sem lifa enn í mikilli vellystingu. Skulda ekki neitt sagði einn af grófari fjárglæframönnum landsins. Einkafélagið sem ég stofnaði er í ábyrgð fyrir láninu sem ég notaði til fjárfestinga en félagið er eignalaust og stefnir í gjaldþrot. Ég vænti þess að milljarðaskuld félagsins verði afskrifuð og almenningur beri tjónið . Er eitthvað ekki í lagi?

Hættuspil.

Sífelldar frestanir og rannsóknartafir koma þeim einum til góða sem fóru offari í græðginni. Þegar almenningur gerir sér grein fyrir þeirri orku sem hefur farið í að koma fyrningarétti í höfn þessara misyndismanna verður allt vitlaust. Fólki ofbýður í dag, án þess að átta sig á raunverulegri stöðu mála og sukkinu sem yfirgnæfir allt. þegar sú stund rennur upp mun hrikta í fleiru en flokksvaldinu og menn sem telja sig örugga í dag verða látnir standa skil á gjörðum sínum.

Glæpsamlegar tafir ?

Ótrúlegt var að lesa um tafir skilanefndar SPRON á útvegun upplýsinga þar sem mánuðir hafa liðið án þess að hún gæti tekið ákvörðun um að nálgast þær. Er þetta kinnroðalaus björgun vina og vandamanna frá réttmætri refsingu eða púra leti. Skilanefndir sem almenningur leit sem ljós í svartnætti útrásarglópa njóta æ minna trausts og = merki er að verða milli þessara hópa. Verður ekkert okkur til bjargar? 

Ekki ræningjar?

Þjófar tíma grófu göng eða réðust vopnaðir inn í banka á árum áður og hirtu það sem hönd á festi og hurfu mis þrekaðir á braut.  Nútíma athafnamenn stofna sumir hverjir  félög, fá innherja í bankanum til að greiða inn á reikning þeirra, stofna jafnvel fleiri félög og færa loks fjármagnið yfir á sitt nafn og skulda ekki neitt. Hætt er við að mörgum forfeðrum okkar þætti tölvuvinnslan löðrumannleg og létt en gjörðin e rsú sama hvaða skýringar sem notaðar eru. Bankinn tapar fjármunum vegna brotsins . Áður voru ræningjarnir settir inn ef þeir náðust en í dag virðast þeim allir vegir færir til frekari hermdarverka og fólkinu heldur áfram að blæða. Hvað er stjórnin að hugsa??

Ekki sjálfrátt.

Hef velt vöngum yfir skorti á eftirliti með  skilanefndum og efast um að þar hafi alltaf verið rétt gefið.  Nú er komið í ljós að ýmsir skilanefndamenn hafi mikilla persónulegra hagsmuna að gæta og því fyrir borð borin sú von að þjóðarheill ráði störfum sumra þeirra. Er ekki komið að ráðamönnum að að gæta hagsmuna heildarinnar og slökkva þá elda sem leika um langbrennda alþýðu.

Það var vitlaust gefið.

Hamast er við að draga útrásarglópa og  aðstoðamenn þeirra á þurrt. Almenningur er með drápsklyfjar á bakinu vegna gjörða bankamanna en þar hvítþvær hver annan fyrir 1 milljón plús slatta í viðbót  á mánuði. Björgun heimilanna er í skötulíki og nú er farið að selja ofan af fólki. Útrásarglóparnir skulda ekki neitt, það eru almennt eignalítil félög í þeirra eigu sem bera skuldir og ábyrgðir ( auknar klyfjar á almenning þar ). Það er uggur í fólki og heift fer vaxandi. Ríkisstjórnin þarf að höggva í aðra knérunna en gert hefur verið ef forða á upplausn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband